mánudagur, 2. apríl 2007

Fótbolti í Íran

Íþróttastelpur og Gudjohnsen!
Hanna Björk Valsdóttir talar frá Teheran

Það er nokkuð ljóst að frægasti Íslendingurinn í Teheran er Gudjohnsen. Íslenski víkingurinn í liði Barcelona. Íranar eru miklir fótboltaáhugamenn og hér er fótbolti þjóðaríþróttin og vinsælt sjónvarpssport. Það er greinilegt að Eiður Smári Guðjohnsen hefur á stuttum tíma í liðinu náð miklum vinsældum meðal Írana. Þegar ég segist vera frá Íslandi verður fólk yfirleitt eitt stórt spurningarmerki í framan, nema þegar strákarnir svara Gudjohnsen og brosa.


Hér hefur enginn heyrt íslenska tónlist enda er hún ólögleg í þessu landi og aðeins örfáir vita hver Björk er, og þá vegna stórleiks hennar í myndinni Dancer In the Dark, enda Íranar miklir kvikmyndaáhugamenn. Björk er sem-sagt frægari leikkona í Íran heldur en tónlistarkona.


En að sjálfsögðu eru það bara strákar sem mega spila fótbolta. Íþróttir eru ekki fyrir stelpur, það er of erfitt að halda slæðunni á höfðinu meðan maður hamast í boltaleik. Þess vegna eru bara huggulegar íþróttir leyfilegar fyrir konur eins og til dæmis skotfimi og siglingar þar sem þær ná að halda höfuðfatinu í réttum skorðum.


Hér á ég nokkrar vinkonur sem hafa mikinn áhuga á fótbolta. Áhuga sem ég skildi voðalega illa þangað til ég komst að því að stelpum er líka bannað að fara á völlinn og horfa á fótboltaleiki. Þess vegna er fótboltaáhuginn hjá stelpunum ákveðin yfirlýsing.


Ástæðan fyrir banninu er að það er ekki hægt að hrúga körlum og konum saman á lítið svæði. Það ætti reyndar að vera frekar auðvelt að skipta áhorfendastúkunni upp í svæði fyrir konur og karla. En það er víst ekki nóg því að tæknilega séð þá eigum við stelpurnar ekki að sjá ber karlmannslæri og strákarnir spila jú fótbolta í stuttbuxum. Önnur ástæða er að á fótboltaleikjum eiga karlmenn það til að æsast upp og kalla ósiðsamleg orð til leikmanna og áhorfenda og þessi munnsöfnuður er ekki talinn hæfa viðkvæmum eyrum kvenþjóðarinnar.


Nokkrar þeirra eru nógu hugaðar til að reyna að smygla sér inn á fótboltaleiki. Nýja myndin hans Jafar Panahi, Offside, sem vann Silfurbjörninn á síðustu Berlínarhátíð, segir frá nokkrum stelpum sem klæða sig upp sem strákar til að reyna að komast á landsliðsleik Írans og Bareins. Þessi mynd hefur farið sigurför um heiminn og er að sjálfsögðu bönnuð í Íran.


Ein fótboltaáhugavinkona mín hér er mikil kvenréttindakona og á það til að mæta fyrir utan fótboltaleiki og mótmæla. Hún er langt frá því að vera sátt við hlut kvenna í Íran en á sama tíma er hún mjög vongóð um að ástandið muni breytast og hefur mikla trú á kynsystrum sínum. Margar íranskar konur eru ótrúlega sterkar og miklar baráttukonur. Með aukinni menntun og fyrirmyndum eins og Nóbelsverðlaunahafanum Shirin Ebati eiga þær bara eftir að verða sterkari. Íran er yngsta þjóð í heimi og 60 prósent af háskólanemum eru stelpur. Þessar stelpur nota námið sem leið til að fara að heiman, fresta hjónabandi og barneignum og öðlast meira frelsi.


En það er fyndið að tala um fótbolta sem þjóðaríþrótt þar sem aðeins helmingurinn af þjóðinni má taka þátt í leiknum. Og það minni helmingurinn þar sem konur eru í meirihluta í Íran. Átta ára blóðugt stríð við Írak tók stóran toll af karlþjóðinni. Flestir þeir sem dóu voru ungir hermenn og þess vegna eru fleiri stelpur um hvern strák hér og meira kappsmál fyrir þær að næla sér í einn. Það er reyndar önnur íþrótt sem ungar stelpur stunda af miklum krafti í Teheran. Það er enn þá ríkt í menningunni að konur séu óæðra kynið og þess vegna er það þeirra hlutverk að táldraga mennina með öllum tiltækum ráðum. List sem íranskar konur kunna mjög vel og útskýrir hvers vegna þær eru svona vel til hafðar og huggulegar öllum stundum.


Önnur vinsæl íþrótt hér er að labba upp Tochal-fjallið sem gnæfir yfir Teheran, eins og Esjan í Reykjavík. Síðustu helgi labbaði ég með vinkonu minni upp fjallið. Þarna voru mættar stelpur í strigaskóm, sportlegum buxum við síða jakka og með klútinn vandlega bundinn á höfuðið.


Á leiðinni upp voru öðru hvoru skilti til að minna stelpurnar á að allar góðar konur hylja líkama sinn og Guð hjálpar þeim. Sum skiltin voru með tilvitnunum úr Kóraninum eins og til dæmis: "Guð er góður og elskar fegurð." Og þar hafiði það.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Greinilega mikil gleði í Íran :)
kv.
Helga Fjóla

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir frábæra pistla! Stefni á að fara til Teheran í haust þökk sé umjöllun þinni.
Gangi þér vel
Sigríður Halldórsdóttir

varði sagði...

þetta er mjög merkilegt. ég hef nýverið kynnst mikið af fólki frá Jerúsalem, sem ég hef hitt í Berlín, á ferðum mínum þar. Það er skemmtilegt að kynnast fólki frá þessum heimshluta, sem við höfum ákaflega einhliða hugmyndir um. T.d. er það eina sem maður heyrir frá Ísrael um ofbeldi og dráp, en það er líka heill menningarheimur þarna sem við lítum algerlega framhjá.