Vegatálmar og vestræn viðhorf
Hanna Björk Valsdóttir talar frá Teheran
Í Íran er föstudagur frídagur, eins og sunnudagur heima. Fimmtudagskvöld eru því partíkvöld hér í Teheran. Það tók mig smá tíma að venjast því að hér byrjar vinnuvikan á laugadegi sem er eins og hver annar mánudagur heima. Svona eru hlutirnir oft öfugsnúnir í Íran. Dagatalið er allt annað, hér er árið 1385, og persneska er skrifuð og lesin í öfuga átt, frá hægri til vinstri.
Síðasta fimmtudagskvöld fór ég með vinkonu minni í partí rétt fyrir utan Teheran. Þessi vinkona mín er ein frægasta leikkona Írana og því í innstu kreðsu lista- og menningargeirans. Eftir því sem maður kemst ofar í þjóðfélagsstigann er fólkið og viðhorfið vestrænna. Það er algengt að ríka fólkið í Teheran eigi annað hús rétt fyrir utan borgina. Þar getur það slappað af, andað að sér fersku lofti og haldið brjáluð partí í risahúsum.
Þar sem við brunuðum í mesta sakleysi eftir hraðbrautinni út úr Teheran komum við að vegatálmum. Áður en við vissum af var lögreglan búin að stoppa okkur og við umkringd hermönnum og lögreglu, og umstangið mjög mikið. Ég vissi ekkert hvað var að gerast en þar sem ég stóð í vegarkantinum á háhæluðum skóm með varalit og bleika slæðu á höfðinu, hvíslaði vinkona mín: "Ekki vera hrædd."
Þarna stóðum við tvær í sparifötunum á leiðinni í partí og vorum skyndilega umkringdar hermönnum með vélbyssur. Á augnabliki var lögreglan búin að umturna bílnum okkar í leit að einhverju, líklega áfengi eða popptónlist. Ég hafði ekki tíma til að vera hrædd því mér fannst svo stórmerkilegt að fylgjast með þessum mönnum, sem æddu fram og til baka með hrópum og köllum sem ég skildi ekki. Þetta var eins og atriði í bíómynd. Svona er lífið hérna stundum súrrealískt.
Að sjálfsögðu fannst ekkert í bílnum okkar og við brunuðum í partíið eins og ekkert hefði í skorist. Vinkona mín fullvissaði mig samt um það að hún hefði aldrei lent í þessu áður og sagði svo í gríni að kannski væri aukið öryggi vegna þess að nú væri Alþjóðakvennadagurinn.
Aðalfréttir síðustu viku frá Íran voru konurnar þrjátíu og þrjár sem voru handteknar fyrir að mótmæla fyrir utan réttarhöld yfir öðrum fimm írönskum konum sem berjast fyrir auknum réttindum kvenna. Þessar konur eru allar menntaðar og eru úr efri stigum þjóðfélagsins. Þar er áherslan á breytingar mest sem og baráttan fyrir rétti kvenna. Fátæku, trúuðu og ómenntuðu konurnar hafa ekki bolmagn til að berjast fyrir rétti sínum og sætta sig við að hylja höfuðið með öllu sem því fylgir.
Þessar handteknu baráttukonur eru aðeins að fara fram á það að aflétt verði lögum sem geta dæmt konur til dauða fyrir framhjáhald með steinkasti og að konur séu metnar til jafns við karlmenn, en í dag er staðan þannig að fyrir rétti hefur vitnisburður karlmanns helmingi meira vægi en vitnisburður konu. Tvær konur eru til jafns við einn karlmann.
Þetta er ennþá Íran þó ég gleymi því stundum þegar ég er með vinkonum mínum sem eru alveg eins og hvar annars staðar í heiminum. Ég fæ reyndar alltaf vægt menningarsjokk í hvert sinn sem ég labba inn í partí hér. Íran úti á götu og Íran inni í húsi er tvennt ólíkt. Í partíum eru konur mjög glannalega klæddar, stífmálaðar og stífgreiddar, eins og dúkkur.
Tónlist, dans og matur lýsa partíum best. Og það í þessari röð. Þegar fólk mætir er tónlistin alltaf í botni og allir dansa af miklum krafti. Það er enginn feiminn á dansgólfinu og svitinn bogar af karlmönnunum. Þegar arabískir tónar heyrast breytast konurnar í persneskar prinsessur. Mjaðmir byrja að sveiflast og hendur lykkjast í hringi. Þvílíkar hreyfingar og þvílík fágun. Þá hætti ég yfirleitt að brussast á dansgólfinu.
Maturinn er borinn fram eftir miðnætti en eftir matinn hægist á dansinum og fólk getur talað saman áður en það fer að tínast heim. Svona eru hlutirnir oft í öfugri röð í Íran.
Lífið hérna er gjörsamlega frábrugðið því sem ég hef áður kynnst og maður verður stöðugt að búa sig undir það óvænta. Rútína er ekki til í orðaforða Írana og því er ekkert sem heitir rútína hér. Enginn dagur er eins. En það er einmitt það sem gerir Teheran að stórskemmtilegri og mjög svo spennandi borg.
þriðjudagur, 13. mars 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Takk fyrir frábæra pistla og að gefa manni nýja sýn á Íran. Gæti óskað þess að fréttaflutningurinn af þessum heimshluta væri meira um hið daglega líf og fólkið sjálft í landinu.
Takk takk og gangi þér vel úti!
Bíð alltaf spennt eftir næsta pistli :-)
Takk fyrir að blogga, það er alveg rosalega gaman og gagnlegt. Og til hamingju með daginn. 21. mars er alþjóðlegur dagur gegn Rasisma og pistlanir þínir sýna að það er einmitt fjölbreytnin sem að gefur lífinu ennþá meira gildi
Skrifa ummæli