mánudagur, 12. febrúar 2007

Shiraz!

Á slóðum Alexander mikla
Hanna Björk Valsdóttir talar frá Teheran

Ég gleymi stundum hvað Íran er ævafornt land, hvað menningin er rík og fáguð og hvað gamla Persía var mikið heimsveldi áður, þegar hún náði yfir öll Mið-Austurlönd, hluta af Afríku og alla leið til Indlands. 4000 ára saga þessa lands skiptist í mörg tímabil velmegunar og hnignunar, þrjú heimsveldi Persíu, konungsveldi og klerkaveldi.

Ég gleymi því líka stundum hvað Íran er stórt land og þar búa um 80 milljónir. Íran er mjög fallegt land, og hefur upp á allt að bjóða, magnaða náttúrufegurð, fjöll og strendur og ævaforna menningu, íburðarmiklar moskur, grafreiti og hallir. Og þar að auki fornminjar frá því fyrir fæðingu Krists. Íran er mjög ríkt land en á móti kemur hversu lokað það er.

Í síðustu viku flaug ég til Shiraz í Suður-Íran með Iran Air. Eftirlitið á flugvellinum var ekki sérstaklega mikið og konurnar sem voru í öryggishliðinu nenntu varla að standa upp þó að hliðið pípti stöðugt á mig. Að sjálfsögðu var sér inngangur fyrir konur og karla.

Shiraz er mikil menningarborg, þar eru fornar moskur og grafreitir, garðar og hallir. Shiraz er borg siðmenningar og fágunar og þar er hjarta persneskrar menningar að finna. Shiraz var áður höfuðborg Persíu og varð fræg fyrir menntun, menningu og listir, ljóðlist, næturgala, rósir og vínekrur.

Fólkið í Shiraz er alveg ótrúlega almennilegt og allir mjög áhugasamir um á hvaða ferðalagi ég væri og hvaðan ég kæmi. Leigubílstjórar neituðu oftar en ekki að taka við greiðslu eftir að hafa keyrt okkur á áfangastaðinn. Í rauninni þyrfti hvorki hótel né veitingastaði í Íran, heilu fjölskyldurnar keppast um að bjóða manni heim í mat og gistingu. Maður er alls staðar velkominn.

Í Shiraz þurfti ég tvisvar að klæðast chador til að mega heimsækja heilaga staði múslima. Það er hægara sagt en gert. Chador er svarta skikkjan sem múslimakonur sveipa um sig og hylur þær frá toppi til táar. Virðing mín fyrir þessum konum hefur aukist til muna eftir að hafa reynt þennan klæðaburð. Chador er eitt stórt lak með engum ermum, hnöppum eða rennilás og þær halda þessu saman með höndunum eða tönnunum. Þegar ég sé þær klæðast þessu úti á götu, halda á barni og kannski einhverju öðru líka er ég viss um að þær eru með einhverja ofurkrafta. Ég átti í mestu vandræðum með að halda þessu saman og til þess þurfti ég að nota báðar hendur. Þar með var ég orðin handlama og gat ekkert annað gert.


Þessar moskur eru ótrúlega fallegar, andrúmsloftið mjög heilagt og magnað að fylgjast með úr fjarlægð hversu máttur trúarinnar er mikill. Í einni moskunni í marglituðum gler- og speglasal með gull- og silfurslegnum hurðum krupu konurnar á gólfinu, allar í svörtum Chador, og báðu eftir kúnstarinnar reglum. Aðrar sátu upp við veggi og lásu úr Kóraninum meðan börnin þeirra léku sér á gólfinu.

Rétt fyrir utan Shiraz standa minjarnar af borginni Persepolis sem var byggð á tímum fyrsta heimsveldis Persíu, um 520 fyrir Krist. Þangað kom fólk til að heimsækja konunginn og íburðurinn hefur verið mikill á þessum tíma. Borgin skemmdist í miklum eldi á tímum Alexanders mikla árið 330 fyrir Krist en ekki er vitað hvort Alexander brenndi borgina viljandi eða hvort kviknaði óvart í henni í einni af drykkjuveislunum. Það var magnað að eyða degi í þessari fornu borg og velta fyrir sér hvernig þeir fóru að því að byggja hana úr sandi og grjóti. Steinveggirnir segja miklar sögur með útskornum myndum og texta. Já, löngu fyrir Krist, á tímum fyrsta heimsveldis Persíu, ríkti mikil menning í Íran.

Leigubílstjórinn sem keyrði okkur út á flugvöllinn í Shiraz talaði um það alla leiðina hversu dapur hann verður yfir ástandinu í Íran í dag í hvert sinn sem hann fer til Persepolis og hugsar til þeirrar siðmenningar og frelsis sem var í landinu fyrir þúsundum ára.

Engin ummæli: